top of page
Arngunnur ýr_edited.jpg

Arngunnur Ýr
Eyrarrósin

 


03. - 25 júní 2023

Eyrarrósin

 

Arngunnur Ýr sýnir ný verk í Portfolio galleri í júní 2023 þar sem hún vinnur með íslensku Eyrarrósina í nýju og framandi umhverfi. Í verkunum, sem eru olíumálverk á birki unnin 2023, hefur Eyrarrósin fundið sér stað á meðal plantna sem finna má langt fyrir utan landsteinana, en Arngunnur Ýr hefur um árabil búið að hluta til í Kaliforníu. Hún mun senn dvelja að hluta til á Hawai’i, og í nýju verkum hennar má finna samtal við þennan nýja stað sem hún hyggst gera að heimili sínu einhverja mánuði á ári hverju. Þegar þjóðinni bauðst að kjósa þjóðarblómið á sínum tíma varð Eyrarrósin fyrir valinu hjá Arngunni, bæði hvað varðar fegurð hennar og þrautseigju. Eyrarrósin vex og dafnar á hrjóstrugustu og ólíklegustu stöðum, en nú mun þessi Eyrarrós hefja langt ferðalag og upplifa nýja menningu og ævintýri í faðmi hitabeltisflórunnar. Með þessum nýju verkum er Arngunnur að skoða þá hugmynd að hvert sem hún fer og hvar sem hún dvelur í lengri eða skemmri tíma er hún alltaf fyrst og fremst Íslendingur.

 

Arngunnur Ýr hefur um árabil haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum hérlendis og víða erlendis. Hún er með BFA gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute, MFA frá Mills College, CA, og lærði einnig við Myndlista-og handíðaskóla Íslands og MFA nám við Gerrit Rietveldt Academie í Amsterdam. Verk Arngunnar má finna í safneign á flestum listasöfnum landsins, ásamt listasöfnum erlendis, EFTA, OECD, Microsoft Art Collection, Nike Art Collection, o.m.fl. Hún hefur m.a. hlotið Pollock Krasner styrk, og starfslaun listamanna á þessu ári fyrir undirbúning sýningar hennar í Portfolio galleri. Framundan eru margar stórar sýningar á komandi ári, og Arngunnur vinnur ötul að list sinni á vinnustofu sinni í náttúruparadís Hafnarfjarðar.

Fyrir nánari upplýsingar um einstök verk, hafið samband í síma 895-5556 / 822-1929

eða sendið póst á galleri@portfolio.is

Takk fyrir, við höfum samband fljótlega

bottom of page