Erla S. Haraldsdóttir
15. okt - 05. nóv 2022
Erla S. Haraldsdóttir notar málverk, teikningar, prentverk og klippimyndir sem miðil til þess að vinna með menningarleg tákn og finna þeim stað í áleitnum og narratívum myndum. Hún er menntuð í málaralist og með fjölbreyttan bakgrunn í gjörningalist og vídeóverkum, en einbeitir sér nú að fígúratívum málverkum þar sem eðliseiginleikar málningar og lita skapa og brjóta upp rými, ljós og skugga. Hún sækir innblástur í margs konar efni og mótív úr listasögunni sem hún setur svo saman af listfengi og kímni.Í verkum sínum fléttar hún oft saman brotum úr persónulegum táknmyndum og menningarlegri arfleifð til þess að kanna samspil fjölskyldubanda, minninga og meðvitundar. Aðferðafræðin er þungamiðja í myndlist Erlu; ferlið er látið stýra verkunum sem lúta oft ýmiss konar reglum og takmörkunum eða eru unnin út frá ákveðnum stöðum eða frásögnum, eða jafnvel fyrirmælum sem aðrir hafa sett henni.