Anna Hallin
Olga Bergmann
ANNARSTAÐAR
04. - 26. mars 2023
Anna Hallin og Olga Bergmann hafa búið og starfað saman mestöll sín fullorðinsár. Þær hafa líka lengi fengist við að sýna okkur inn í nýja heima. Sýningar þeirra, hvort sem þær vinna verkin saman eða hvor fyrir sig, eru eins konar sögustundir þar sem við getum týnt okkur sjálfum í ævintýrinu um stund og séð tilveruna í öðru ljósi.
Á sýningu Önnu og Olgu í Portfolio færa þær okkur skilaboð frá hinni víddinni sem bárust þeim í kóvídinu. Þar er komin heil sendinefnd af leirfígúrum eftir Önnu sem hefur frá mörgu að segja og hefur með sér túlk sem þó er þögull – við þurfum sjálf að ljá þeim rödd. Í fararteskinu hefur nefndin tréskúlptúra Olgu sem skýra nýja heimsmynd þar sem hið ytra speglar hið innra og plánetur og tungl dansa sinn eilífa en óræða tangó. Anna leggur líka til teikningar sem eru leiðarvísar, eins konar landakort, en líkt og með skilaboð sendinefndarinnar þurfum við sjálf að ráða fram úr þeim.
Þannig eru allar sýningar Olgu og Önnu. Þær birta okkur heillandi – og stundum ógnandi – ævintýraheim, fullan af sögum sem við þurfum sjálf að segja. Þannig spegla þær veruleika okkar allra: Það getur enginn kennt okkur að lifa, en ef við dokum við og gefum lífinu gaum getum við kannski lært eitthvað.